Þrösturinn
Höfundur: Örn Friðriksson
Textahöfundur: Thomas Hardy (þýð: Helgi Hálfdánarson)
1.
Ég hvíldi fram á hliðsins grind og hélu frost var á;
af vetrardrunga dagsins mynd var dapureyg og grá.
Sem hrokkna strengi hríslur bar við himins þoku tjöld
og mannaferð öll flúin var í feginsró það kvöld.
Er landsins stjarfa svip ég sá mér sýndist öld vor dauð
og kólguský varð hvelfing há en harmljóð stormsins gnauð.
Hver æð var fryst sem forðum bar nýtt fjör um hjartans veg;
hver andi dáðlaus drepinn var í dróma líkt og ég.
2.
Þá hóf sig rödd af hárri eik með hrím um nakta grein;
af endalausum innileik svo ör af sæld og hrein.
Þar gamall þröstur soltinn sat með svala um úfið brjóst
og sál hans örugg sigrað gat með söngvum kvöldsins gjóst.
En lítið efni leizt mér þó í ljóð svo björt og hlý,
er allt var hulið húmi og snjó. Í hug ég komst að því
að honum ekkert annað bar þann yl í ljóðin sín
en einhver blessuð von sem var hans vissa en ekki mín.